Leita í fréttum mbl.is

Þakkir

Zora YoungBlúshátíð í Reykjavík 2007 vill þakka öllum fyrir komuna á hátíðina í ár og öllum þeim sem lagt hafa henni lið.

Hátíðin gekk mjög vel, með fernum frábærum og sjóðheitum tónleikum á Nordica og í Fríkirkjunni og klúbbnum á Domo öll kvöldin. Aðsókn var mjög góð, hefði þó getað verið aðeins betri, en allt fór þetta fram í friði og spekt. Gestir Blúshátíðar voru hrærðir og snortnir af viðtökum íslenskra blúsvina og Ronnie Baker Brooks gaf vilyrði fyrir að koma aftur á hátíðina. Zora Young mun örugglega syngja oftar á Íslandi. Blúsfólkið okkar átti sinn stóra þátt í að Blúshátíðin varð svo glæsileg sem reyndin var: Blúsmaður ársins KK og Frakkarnir hans, Andrea og Blúsmenn hennar, Kentár, Lay Low, Brynhildur Björnsdóttir, Goðsagnir Íslands og Blue Ice Bandið. Ungliðarnir sem komu fram á hátíðinni í ár voru virkilega góðir og staðfestu það að blúsinn á Íslandi á góða daga í vændum.

Sjálfboðaliðar Blúshátíðar voru margir og sinntu allt frá ýmiss konar snatti allt til ábyrgðarstarfa. Þeim eru færðar hjartans þakkir fyrir óeigingjarnt framlag og fórnfúst starf.

Styrktaraðilar Blúshátíðar eru þeir sem gera það mögulegt að halda jafn glæsilega hátíð, og eru þeim færðar innilegar þakkir fyrir höfðingsskapinn. Fyrir þeirra tilstilli hefur það verið mögulegt að bjóða hingað besta blúsfólki sem völ var á, og stilla miðaverði jafnframt í hóf.

RBB útí salEn án ykkar kæru blúsvinir, væri þetta ekki hægt. Ykkar áhugi er það sem þarf til að glæða eldinn. Við þökkum ykkur af öllu hjarta fyrir komuna og stuðninginn á liðnum árum, og vonumst til að sjá ykkur að ári.

Þótt hátíðinni sé formlega lokið, var dagurinn í gær annasamur fyrir Zoru Young og Blue Ice Bandið, eins og þið hafið kannski lesið um hér. Þau lögðu af stað í býtið til Danmerkur og komu, sáu og sigruðu á Blúshátíðinni í Árósum í gærkvöldi. Útrás Blúshátíðar er hafin, og síðar í mánuðinum syngja dívurnar þrjár, Zora, Deitra Farr og Grana Louis, sem allar voru hér í fyrra, með Blue Ice Bandinu á Blúshátíðinni í Niðarósi.

Haldið áfram að kíkja inn á Blúsbloggið, hér verða áfram fréttir af ferðum íslenska blúsfólksins í Danmörku og víðar.

 

Gleðilega páska!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband