Leita í fréttum mbl.is

Blúsmaðurinn Egill Skallagrímsson visiterar Niðarósdómkirkju

niðarósdómkirkja

Ár og dagar eru frá ferðum Egils Skallagrímssonar um Noreg. Einu sinni sem oftar bankaði hann uppá í Þrándheimi til að krefja Hákon Aðalsteinsfóstra sem þá þá var kóngur í Noregi um fé það er hann átti inni hjá honum og leyfi til að innheimta aðrar þær bætur og sakir er hann átti á menn.  Heimturnar sóttust Agli misvel, þótt á endanum kæmist hann ríkur maður aftur heim á Borg.

Þrátt fyrir hetjulund og ófáa bardagasigra var það harmurinn mikli, þegar Böðvar sonur Egils drukknaði, sem kostaði Egil næstum lífið. Þá var það frumburðurinn, Þorgerður, sem sá við depurð föður síns og lokkaði hann af slægð með sölvaáti úr lokrekkju sinni þar sem hann hafði lokað sig af í sorg sinni.  Þorgerður hvatti föður sinn til að yrkja Böðvari erfiljóð, og allir vita að þar varð til ein dýrasta perla íslenskra bókmennta.

Þráin til að skapa varð harminum yfirsterkari, og úr dýpstu sorginni var dýrt kveðið.

Mjök erum tregt
tungu at hræra
eða loptvætt
ljóðpundara;
esa nú vænligt
of Viðurs þýfi
né hógdrægt
ór hugar fylgsni.

gluggi í niðarósdómkirkjuDóri varð fyrir sterkum hughrifum í Niðaróskirkju í gær.  Það vita allir hér um hans harma við sonarmissi, þeim þarf ekki að leyna.  Til Þrándheims var Dóri kominn í fótspor Egils, í friðarvíking við mann og annan og miðluðu um leið af sínum besta sköpunarmætti.  Það var Egill sem sótti á Dóra á þessu uppljómaða augnabliki í dómkirkjunni stórfenglegu.  Blúsmaðurinn Egill Skallagrímsson.  Líkt og hjá Agli, varð sköpunarþörf Dóra hans sorg yfirsterkari og það undur lífsins lifði hann í gær.  Allt er þetta amstur okkar blús, hvort sem það heitir Sonatorrek eða I'm tore down.

En Egill er Hoochie Coochie Man og það er Dóri líka - horfa brattir framan í heiminn hvað sem á bjátar, eins og allir þeir sem hafa reynt og lært að í blúsnum er líka leiðin til lífsins og gleðinnar.

Nú erum torvelt:
Tveggja bága
njörva nipt
á nesi stendr;
skalt þá glaðr
með góðan vilja
ok óhryggr
heljar bíða.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband