Leita í fréttum mbl.is

Blúsinn tengir kynslóðirnar

Það var eftirtektarvert á Blúshátíðinni um daginn að það var langt frá því að vera einhver ein kynslóð sem sótti hana.  Miðaldra fólk kom með foreldra sína, og fólk á sama aldri kom með börnin sín.  Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður toppaði þetta með því að mæta með afa sinn aldraðan, sem virtist skemmta sér vel.  Blúshátíð barst eftirfarandi bréf frá Vilborgu Ölversdóttur:

 

Ég vil þakka fyrir alveg sérstaklega frábær blúskvöld í dimbilviku á Nordica þar sem ég og sonur minn nutum þeirra allra í tætlur, td. á heimleið fimmtudagskvöldið var unglingurinn ekki viðræðu hæfur því hann var sem í losti yfir Zoru Young hún hreyfði þvílíkt við honum, enda alveg stórkostleg díva. Ég er sammála um að allir listamennirnir sem komu fram á hátíðinni eru frábærir og á heimsklassa. Við mætum örugglega næsta ár á Blúshátíð

Kærar blús kveðjur

Vilborg Ölversdóttir 


Úr gestabókinni

Matthías V. Baldursson

Takk fyrir mig

ég vil bara þakka kærlega fyrir að hafa fengið að vera með á þessari mögnuðu hátíð. Stemningin á klúbbakvöldinu var ótrúleg og ég hef sjaldan upplifað slíka stemningu hér á okkar blessaða skeri. Er strax farinn að hlakka til næsta árs. Kv.Matti sax

Matthías V. Baldursson skrifaði: 2007-04-09


Lýsið og Sigurbjörn

Það var víst Sigurbjörn, allsherjar altmuligmand Blúshátíðar sem átt lýsið sem Zoru var skenkt eftir flguð.  Robbi kom þar hvergi nálægt.

Sko, segiði svo að lýsi hafi ekkert að segja.  Vitiði hvernig komið er fyrir Sigurbirni?

Hann er hundveikur á hóteli í Kaupmannahöfn.  Ætli hann sjái eftir lýsinu oní Zoru? 

 

Lærdómurinn er:  Þegar þú ferð til Danmerkur með ameríska blúsdívu, þarftu tvær þorskalýsisflöskur meðferðis.


Norðurlandamafían makkar

Annar í páskum í Köben.  Fulltrúar Blúshátíðar í Reykjavík eiga fund með Danmerkurdeild blúsmafíunnar á Norðurlöndunum.  Blúsbloggið mun fylgjast grannt með þessum ósvífnustu blúsplönum sem sögur fara af.

Heimsyfirráð eða blús!

Jostein Forsberg forsprakki Notodden blúshátíðarinnar í Noregi, sem er ein stærsta blúshátíð hérna megin Atlantsála, var á tónleikum Blue Ice Bandsins og Zoru Young í Árósum í gærkvöldi.  Það tókust kærleikar með honum og blúsfólkinu okkar.  Ólyginn sagði Blúsblogginu að Dóri Braga og Jostein hefðu gengið í blúsbræðralag, og hefðu rætt heimsveldisdrauma blússins á Norðurlöndunum.  En það var eitthvað með þennan mann.  Hann varð svo hugfanginn af bílstjóra blúsfólksins okkar, að bílstjórinn rataði ekki til baka á hótelið eftir tónleikana. Eða var það ekki annars?  

G.P. Einstein

G.P. EinsteinÁ Blúshátíðinni í Árósum í gærkvöldi var Gummi P. eitthvað tættur og úfinn og lokkarnir ljósu eitthvað tryllingslegir.  Zoru Young var alveg sama og sagði:  "Gee, I like that Einstein look!"

Í dag kallar hljómsveitin hann Gumma Einstein - enda er hann snargáfaður þessi snjalli gítarleikari Blue Ice Bandsins.  


Þakkir

Zora YoungBlúshátíð í Reykjavík 2007 vill þakka öllum fyrir komuna á hátíðina í ár og öllum þeim sem lagt hafa henni lið.

Hátíðin gekk mjög vel, með fernum frábærum og sjóðheitum tónleikum á Nordica og í Fríkirkjunni og klúbbnum á Domo öll kvöldin. Aðsókn var mjög góð, hefði þó getað verið aðeins betri, en allt fór þetta fram í friði og spekt. Gestir Blúshátíðar voru hrærðir og snortnir af viðtökum íslenskra blúsvina og Ronnie Baker Brooks gaf vilyrði fyrir að koma aftur á hátíðina. Zora Young mun örugglega syngja oftar á Íslandi. Blúsfólkið okkar átti sinn stóra þátt í að Blúshátíðin varð svo glæsileg sem reyndin var: Blúsmaður ársins KK og Frakkarnir hans, Andrea og Blúsmenn hennar, Kentár, Lay Low, Brynhildur Björnsdóttir, Goðsagnir Íslands og Blue Ice Bandið. Ungliðarnir sem komu fram á hátíðinni í ár voru virkilega góðir og staðfestu það að blúsinn á Íslandi á góða daga í vændum.

Sjálfboðaliðar Blúshátíðar voru margir og sinntu allt frá ýmiss konar snatti allt til ábyrgðarstarfa. Þeim eru færðar hjartans þakkir fyrir óeigingjarnt framlag og fórnfúst starf.

Styrktaraðilar Blúshátíðar eru þeir sem gera það mögulegt að halda jafn glæsilega hátíð, og eru þeim færðar innilegar þakkir fyrir höfðingsskapinn. Fyrir þeirra tilstilli hefur það verið mögulegt að bjóða hingað besta blúsfólki sem völ var á, og stilla miðaverði jafnframt í hóf.

RBB útí salEn án ykkar kæru blúsvinir, væri þetta ekki hægt. Ykkar áhugi er það sem þarf til að glæða eldinn. Við þökkum ykkur af öllu hjarta fyrir komuna og stuðninginn á liðnum árum, og vonumst til að sjá ykkur að ári.

Þótt hátíðinni sé formlega lokið, var dagurinn í gær annasamur fyrir Zoru Young og Blue Ice Bandið, eins og þið hafið kannski lesið um hér. Þau lögðu af stað í býtið til Danmerkur og komu, sáu og sigruðu á Blúshátíðinni í Árósum í gærkvöldi. Útrás Blúshátíðar er hafin, og síðar í mánuðinum syngja dívurnar þrjár, Zora, Deitra Farr og Grana Louis, sem allar voru hér í fyrra, með Blue Ice Bandinu á Blúshátíðinni í Niðarósi.

Haldið áfram að kíkja inn á Blúsbloggið, hér verða áfram fréttir af ferðum íslenska blúsfólksins í Danmörku og víðar.

 

Gleðilega páska!


Dönsku hipparnir hamingjusamir

Dóri og Zora á Blúshátíð í Reykjavík 2006Zora Young og Blue Ice Bandið trylltu ríflega þúsund manns á Djurs Bluesland hátíðinni í Árósum í kvöld.  Það gekk þó ekki allt eins og áætlað var, því Zora var við það að missa röddina, eftir löng og ströng ferðalög síðustu daga og tvenna tónleika á Blúshátíð í Reykjavík.  Hún söng samt eins og hún gat.  Bandið tók lög inn á milli til að hvíla dívuna og Dóri tók JJ Cale smellinn Sensitive Kind.  Allt fór áDóri og Deitra á Blúshátíð í Reykjavík 2005 besta veg og miðaldra danskir hippar á hátíðinni kunnu vel að þakka fyrir sig, lögðu hönd í hjartastað til að hylla Zoru sem var stjarna hátíðarinnar.  Þarna voru forsvarsmenn ýmissa blúshátíða, og segja leynilegar heimildir að okkar fólki verði boðið að koma fram víðar á blúshátíðum á Norðurlöndunum á næstunni.  Það er þó löngu ákveðið að Blue Ice Band og dívurnar þrjár, Zora, Dietra Farr og Grana Louis, sem allar sungu á hátíðinni hér í fyrra, verða á Blúshátíðinni í Niðarósi síðar í apríl. 

Enn fleiri myndir komnar inn!

Are you having fun?

Enn fleiri myndir eru komnar í myndaalbúm Blúsbloggsins.  Kristján Helgason er höfundur myndanna sem komnar eru frá fimmtudagskvöldinu á Nordica.  Hér er Zora í stuði með Blue Ice Bandinu:  Are you having fun?


On the road again

Zora var stórkostlegBlue Ice Bandið og Zora Young bruna nú eftir þjóðvegum Jótlands gegnum skóga og vorgrænar sveitir á leið til Árósa, þar sem þau eiga að spila eftir skamma stund á Djurs Bluesland hátíðinni. 

Eftir örfárra klukkustunda svefn vaknaði liðið og lagði í hann frá Nordica kl. 5 í morgun.  Það var flogið til Kaupmannahafnar og þaðan til Álaborgar. Robbi bassaleikari var settur í það að passa Zoru sérstaklega, svo hún týndist ekki aftur. Ferðalagið tók á mannskapinn, enda varla nema örfáir tímar síðan þau voru að spila hér heima.  Dóri var við það að missa röddina og Zora líka.  Bjargræðið var þó ekki langt undan. Í bílnum dró Robbi upp þorskalýsisflösku og hellti í Zoru, og bílstjórinn bætti um betur með dönskum töfrahálstöflum.  Síðast þegar spurðist voru allir í góðum gír og til í slaginn á eftir.

 

Fréttir af tónleikunum í Danmörku verða að sjálfsögðu á Blúsblogginu síðar í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband